Frábær hringur og Guðrún komin í toppbaráttu á Spáni

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék mjög vel á öðrum hringnum á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi í dag en hún lauk honum fyrir stundu á 69 höggum. 

Guðrún er þar með komin í toppbaráttuna á mótinu sem fram fer á La Manga á Spáni því sem stendur deilir hún fjórða sætinu af 120 keppendum með þremur öðrum konum. Margar eiga hins vegar eftir að ljúka öðrum hringnum í dag og staðan getur því enn breyst talsvert.

Mikið er í húfi á La Manga því efstu fimmtán konurnar eftir fimm hringi tryggja sér keppni á Evrópumótaröðinni í ár.

Guðrún, sem nú er samtals á tveimur höggum undir pari, er þar með búin að leika einn hring á hvorum velli á svæðinu en sá sem hún lék á í gær er par 71 völlur og sá sem hún lék á í dag er par 73. Hún var því á fjórum höggum undir pari í dag og sýndi mjög jafna spilamennsku en Guðrún fékk fjóra fugla á hringnum og lék hinar fjórtán holurnar allar á pari.

mbl.is