Leikur á sama móti og Ernie Els

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson er á meðal kylfinga sem leika á Dimension Data Pro Am-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu um helgina. Guðmundur lék annan hringinn í dag á 70 höggum, tveimur höggum undir pari. 

Íslandsmeistarinn lék á 74 höggum í gær, tveimur yfir pari, og er því samtals á parinu. Hann er í 116. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum. Skorið verður niður eftir þrjá hringi og verður Guðmundur að eiga góðan hring á morgun til að eiga möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn. 

Á meðal kylfinga á mótinu er Ernie Els, en hann hefur fjórum sinnum borið sigur úr býtum á risamótum. Hann er í 13. sæti á samtals níu höggum undir pari. 

mbl.is