Ekki hrifinn af úrvalsdeild í golfi

Rory McIlroy er ekki hrifinn af úrvalsdeild í golfi.
Rory McIlroy er ekki hrifinn af úrvalsdeild í golfi. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy, einn fremsti kylfingur heims, er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að stofna svokallaða úrvalsdeild í golfi, sem einungis er fyrir allra fremstu kylfinga heims. 

Stefnt hefur verið að stofna nýja deild í golfi sem svipar til Formúlu 1. Spilað yrði á 18 mótum á ári, 54 holur á hverju móti. Yrði einnig keppt í liðakeppni. Þá yrði verðlaunaféð gríðarlega hátt, hærra en þekkist á mótaröðum í Bandaríkjunum og Evrópu. 

„Því meira sem ég hef hugsað um þetta, því verr líkar mér þessi hugmynd. Eitt af því sem ég hef kunnað að meta við mína stöðu sem atvinnumaður í golfi er að velja mótin sem ég spila á. Með nýju deildinni yrði mér stjórnað og ég vil ekki láta stjórna mér,“ sagði McIlroy um úrvalsdeild í golfi.  

Hann segir enn fremur að Tiger Woods muni ekki hafa áhuga á slíkri deild. „Hann á tvö ung börn og hann vill spila tólf sinnum á ári. Í þessari deild þyrfti hann að spila átján sinnum á ári og hann er ekki áhugasamur um það,“ sagði McIlroy. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert