Valdís í ágætri stöðu í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á pari í nótt.
Valdís Þóra Jónsdóttir lék á pari í nótt. AFP

Valdís Þóra Jónsdóttir er í ágætri stöðu eftir þriðja hringinn á NSW Open-golfmótinu í Ástralíu sem leikinn var í nótt en mótið er liður í Evrópumótaröð kvenna þar sem bæði hún og Guðrún Brá Björgvinsdóttir komust í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Valdís lék hringinn í nótt á 72 höggum, á pari vallarins. Hún er samanlagt á 218 höggum, tveimur höggum yfir pari, og er í 30.-36. sæti fyrir lokahringinn.

Guðrúnu gekk ekki eins vel því hún lék hringinn á 81 höggi, níu yfir pari. Hún er þar með samtals á 230 höggum, fjórtán yfir pari, og er í 65. og síðasta sæti af þeim sem héldu áfram keppni en 156 kylfingar hófu mótið.

Manon De Roey frá Belgíu hefur leikið frábærlega á mótinu og er með fimm högga forystu fyrir lokahringinn, hefur leikið á 201 höggi samtals eða 15 undir pari. Næst á eftir henni er Julia Engström frá Svíþjóð á 206 höggum, 10 undir pari.

mbl.is