Fjórði besti árangur Valdísar

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir.

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir hafnaði í sjöunda sæti á South African Women's Open-golf­mót­inu í Höfðaborg. Valdís lék þriðja og síðasta hringinn í dag á 72 höggum og hafnaði í sjöunda sæti.

Valdís var á tímabili aðeins einu höggi frá toppsætinu, en henni fataðist flugið á síðari níu holunum, sem hún lék á tveimur höggum yfir pari. Hafði hún hafði leikið fyrri níu holurnar á tveimur höggum undir pari. 

Valdís lék samanlagt á tveimur höggum undir pari eftir stöðugt og gott golf í þrjá hringi. Endaði hún þremur höggum frá sigurvegaranum Alice Hewson. 

Árangurinn hjá Valdísi er sá besti á árinu og fjórði besti árangurinn á mótaröðinni. Hefur hún nú fjórum sinnum verið á meðal tíu efstu kylfinganna. Valdís fékk rúmar 4.500 evrur fyrir árangurinn, eða um 700.000 krónur. 

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék einnig á mótinu en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi. 

mbl.is