Aflýst í fyrsta skipti síðan 1945

Haraldur Franklín Magnús er eini Íslendingurinn sem tekið hefur þátt …
Haraldur Franklín Magnús er eini Íslendingurinn sem tekið hefur þátt í The Open og er hér á skjánum á Carnoustie í júlí 2018. mbl.is/Kris

Einu elsta íþróttamóti sem fram fer árlega í heiminum, The Open Championship í golfi, hefur verið aflýst í ár vegna kórónuveirunnar. 

Mótið átti að fara fram á St. George's-vellinum í suðurhluta Englands í júlí. Verður mótið haldið á vellinum 14.-18. júlí í staðinn. Mótið er númer 149 í röðinni og mun mót númer 150 fara fram á Gamla vellinum í St. Andrews eins og áætlað var. En verður þá árið 2022 en ekki 2021 eins og gert hafði verið ráð fyrir. 

The Open er fyrsta risamótið hjá körlunum sem er formlega aflýst í ár vegna kórónuveirunnar. The Masters átti að hefjast næsta fimmtudag en því var frestað og nánari útfærslur hafa ekki verið tilkynntar. Einnig var ákveðið að fresta PGA-meistaramótinu en enn sem komið er hefur ekkert verið tillkynnt varðandi Opna bandaríska mótið sem á að vera í New York í júní. 

Hjá konunum var ANA Inspiration frestað en það átti að fara fram í síðustu viku. 

The Open hefur ekki oft fallið niður en mótið var ekki haldið meðan á heimsstyrjöldunum stóð: 1915-1919 og 1940-1945. Þess utan þurfti einu sinni að aflýsa mótinu þar til nú og var það árið 1871 en The Open hefur verið haldið síðan 1860.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert