Stefnt að risamóti í nóvember

Tigers Woods sigraði á Masters í fyrra og fór varla …
Tigers Woods sigraði á Masters í fyrra og fór varla framhjá nokkrum nettengdum manni og var sigurinn af mörgum álitinn vera fréttnæmasta atvikið í íþróttaheiminum 2019. AFP

Þeir sem mestu ráða í golfíþróttinni hafa greinilega valið daginn í dag til að senda frá sér stórar tilkynningar. 

Fred Ridley, stjórnarformaður Augusta National-golfklúbbsins sem heldur Masters-mótið, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að til standi að halda Masters í nóvember. Nánar tiltekið 11.-15. nóvember ef ástandið í heiminum verður orðið betra vegna kórónuveirunnar. 

Masters fer ávallt fram á Augusta-vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum í apríl og er fyrsta risamótið hjá körlunum í golfinu ár hvert. Mótið í ár átti að hefjast næsta fimmtudag. 

Fram kemur í tilkynningunni að nánari upplýsingar verði sendar út á næstu vikum og mánuðum.

Nú seinni partinn var einnig tilkynnt að Opna bandaríska meistaramótið yrði haldið á Winged Foot-vellinum í New York 17.-20. september. Mótið átti að fara fram um miðjan júní. 

Stefnt er að því að halda PGA-meistaramótið 6.-9. ágúst í San Francisco. 

Keppt verður um Ryder-bikarinn í haust að öllu óbreyttu. Sú dagsetning er óbreytt en keppt verður á Whistling Straits-vellinum í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert