Bestu flatirnar á Íslandi?

Í upphafi aldarinnar komu heimsþekktir kylfingar til Íslands og kepptu á Canon-mótinu á Hvaleyri. Fjórir þeirra áttu eftir að vinna risamót í golfi eftir Íslandsheimsóknina. 

Það voru þeir Retief Goosen sem átti eftir að vinna Opna bandaríska meistaramótið árið 2004. Padraig Harrington sem átti eftir að vinna Opna breska meistaramótið 2007, 2008 og PGA-meistaramótið 2008. Er hann núverandi liðsstjóri Ryder-liðs Evrópu sem mætir Bandaríkjunum í haust. Justin Rose sem átti eftir að vinna Opna bandaríska árið 2013 og gullverðlaunin á Ólympíuleikunum 2016. Trevor Immelman sem átti eftir að vinna Masters árið 2008. 

Í Morgunblaðinu í dag eru þessar heimsóknir rifjaðar upp á íþróttasíðum blaðsins og er þar rætt við Sigurjón Hjaltason þá verandi starfsmann Nýherja og núverandi starfsman Origo. Nýherji og Golfklúbburinn Keilir stóðu að mótunum og voru þau haldin fimm sinnum frá 2000 - 2004. Fóru þau ávallt fram á Hvaleyrarvellinum í Hafnarfirði. 

„Þetta var skemmtilegur tími fyrir okkur,“ sagði Ólafur Þór Ágústsson, þáverandi vallarstjóri hjá Keili og núverandi framkvæmdastjóri klúbbsins, þegar mbl.is bað hann að rifja þetta upp. „Svo virtist sem menn ættu eftir að vinna risamót ef þeir komu til Íslands. Ég man að Ronan Rafferty sagði að flatirnar á Hvaleyrinni væru þær bestu sem hann hefði spilað á það árið,“ sagði Ólafur en Rafferty kom með Retief Goosen sumarið 2001. Rafferty var í Ryder-liði Evrópu sem vann Bandaríkin á Belfry árið 1989. Önnur gömul kempa sem hafði keppt í Rydernum, Peter Baker, kom 2003 með Justin Rose. 

Ásamt hinum erlendu gestum var snjöllum íslenskum kylfingum boðið og slegið upp 18 holu móti. Þessir erlendu kylfingar komu til Íslands vegna mótanna: 

2000: Barry Lane og Patrik Sjöland.

2001: Retief Goosen og Ronan Rafferty.

2002: Padraig Harrington og Nick Dougherty.

2003: Justin Rose og Peter Baker.

2004: Trevor Immelman og Tony Johnstone.

Völlurinn er frábær og skiptist í tvennt sem er sjaldgæft. Fyrri níu holurnar í hrauninu minna mig einna helst á Hawaii en síðari níu við sjóinn eru einnig sérstakar á sinn hátt. Þar sem ég þekki ekki völlinn verður ekki hjá því komist að gera mistök,“ sagði Harrington í samtali við Morgunblaðið 30. júlí 2002. 

Canon-mótin eru rifjuð upp í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Sigurjón útskýrir þar til að mynda tilurð mótanna og hvers vegna þau duttu upp fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert