Ætlar ekki að spila golf við Trump framar

Rory McIlory er einn besti kylfingur heims.
Rory McIlory er einn besti kylfingur heims. AFP

Rory McIlroy, einn besti kylfingur heims, var mikið gagnrýndur á samfélagsmiðlum fyrir þremur árum fyrir að spila golf með Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Norður-Írinn varði ákvörðunina á sínum tíma og sagði hana ekki vera pólitíska yfirlýsingu, heldur samþykkti hann boð Trumps af virðingu við forsetaembættið. McIlroy ræddi um forsetann í McKellar Journal-hlaðvarpinu. 

„Ég viðurkenni að ég naut þess að spila með honum,“ sagði McIlroy, en hann hefur unnið fjögur risamót á ferlinum. „Hann er mjög heillandi og var mjög almennilegur við alla. Hann hefur eitthvað, annars væri hann varla í Hvíta húsinu, er það? Ég naut þess að spila með honum, en það þýðir ekki að ég sé sammála öllu sem hann segir.“

McIlroy hélt svo áfram og lýsti yfir vonbrigðum sínum með hvernig forsetinn hefur tekist á við kórónuveirufaraldurinn. „Við erum að glíma við eitthvað sem er mjög alvarlegt og hann er að reyna að nýta sér það í pólitískum tilgangi og monta sig af því að Bandaríkin hafi tekið fleiri veirupróf en nokkur annar. Það er eitthvað við það sem er hræðilegt. Þjóðarleiðtogi á ekki að haga sér þannig,“ sagði McIlroy, sem mer lítið spenntur fyrir að endurtaka leikinn. 

„Ég er ekki viss um að hann vilji spila með mér aftur eftir það sem ég hef sagt en nei, ég myndi ekki spila við hann aftur,“ sagði Rory McIlroy. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert