Púttaði eins og hershöfðingi

Axel Bóasson á Akranesi í dag.
Axel Bóasson á Akranesi í dag. Ljósmynd/seth@golf.is

„Ég hugsaði að ég þyrfti að vera tilbúinn að fara í bráðabana. Ég átti ekki von á að hann myndi klikka á þessu pútti,“ sagði Axel Bóasson í samtali við mbl.is rétt eftir að hann bar sigur úr býtum á B59 Hotel-mót­inu í golfi sem fram fór á Garðavelli á Akra­nesi um helg­ina.

Úrslitin réðust á lokaholunni og gat Haraldur Franklín Magnús tryggt sér bráðabana með pútti úr fínni stöðu. Það tókst ekki og Axel, sem varð Íslandsmeistari 2018, fagnaði því sigri. Axel var sex höggum á eftir efstu mönnum eftir fyrsta hring, en hann er afar sáttur við mótið í heild sinni. 

„Ég er mjög sáttur við mótið heilt yfir. Þetta var mikil harka og mikið jákvætt sem ég get tekið úr þessu, en á sama tíma mikið sem ég þarf að vinna í. Fyrsti hringur virkaði nokkuð góður á mig, en ég var lélegur að pútta. Seinni hringirnir voru voðalega svipaðir nema ég púttaði eins og hershöfðingi,“ sagði Axel léttur. 

Axel tók einnig þátt á ÍSAM-mótinu í Mosfellsbæ um síðustu helgi. Fyrir mótið sagði hann við mbl.is að hann ætti ekki von á sigri. Nú viku seinna stendur hann uppi sem sigurvegari, en kom það honum á óvart? 

„Kannski óbeint. Ég hugsaði bara um að spila mitt golf og svo ætlaði ég að sjá hvert það leiddi. Það endaði í sigurfæri og ég nýtti það í dag, sem ég er mjög sáttur við. Andlegi þátturinn er greinilega að styrkjast hjá mér,“ sagði Axel Bóasson. 

mbl.is