Þarf alltaf að harka aðeins af sér

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór með sigur af hólmi á Akranesi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór með sigur af hólmi á Akranesi. Ljósmynd/seth@golf.is

Ólafía Þór­unn Krist­ins­dótt­ir bar sig­ur úr být­um á B59 Hotel-mót­inu í golfi sem fram fór á Garðavelli á Akra­nesi um helg­ina. Er mótið það fyrsta hjá Golf­sam­bands Íslands á ár­inu 2020.

Ólafía var að elta Valdísi Þóru Jónsdóttur nánast allt mótið, en eftir góðan sprett tókst Ólafíu að jafna heimakonuna Valdísi fyrir síðustu holuna. Hana lék Ólafía á pari og Valdís á skolla og fagnaði Ólafía því sigri. 

„Það er búið að vera stígandi í þessu. Um síðustu helgi var ég tveimur undir og núna þremur undir. Mér fannst ég gera margt betur í þessari viku og ég er sátt. Ég veit hverju ég þarf að vinna í og ég ætla mér að halda áfram að bæta mig,“ sagði Ólafía við mbl.is eftir mótið. 

Æfði heima í bílskúrnum

Ólafía endaði í öðru sæti á ÍSAM-mótinu í Mosfellsbæ um síðustu helgi og hefur því leikið vel á sínum fyrstu keppnismótum hérlendis síðan 2016. Hún getur hins vegar enn bætt sig, enda hafa æfingarnar að mestu farið fram í bílskúr heima. 

„Ég náði ekki að æfa mig mikið í að pútta, ég var aðallega að slá á meðan Covid-bílskúrsæfingarnar voru. Þegar öll æfingasvæðin eru lokuð þarf ég að slá í net í bílskúr og ég var ekki að pútta mikið þá, í nokkrar vikur. Ég er aðeins að koma mér í púttgírinn. Ég stóð mig betur núna en síðustu helgi.“

Ólafía hefur undanfarið ár oftar en ekki leikið við bestu aðstæður í Bandaríkjunum og víðar. Það tekur því nokkuð á að koma í íslenskar aðstæður, en nokkurt rok hefur verið á mótunum tveimur. 

„Ég ólst upp hérna og ég man alveg hvernig það er að vera í rokinu, kuldanum og rigningunni. Ég hef líka spilað í Skotlandi og svoleiðis, þannig að ég er með góða reynslu af því að spila í svona veðri, en maður þarf alltaf að harka aðeins af sér. Þetta er ekki alveg jafn ljúft og í Bandaríkjunum.“

Óvissa í Bandaríkjunum

Ólafía verður hér á landi næstu vikur, en framhaldið með Symetra-mótaröðina í Bandaríkjunum er í óvissu, en ljóst er að erfiðara verður en áður að tryggja sér sæti í LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi, í gegnum Symetra, vegna þess ástands sem nú ríkir í Bandaríkjunum, en kórónuveiran hefur verið skæð þar í landi. 

„Ég verð alla vega út júní, en ég þarf að bíða og sjá hvernig þetta fer og hvernig mótaskráin okkar úti verður. Tímabilið í ár skiptir ekki eins miklu máli og það eru afar fá sæti í boði á LPGA í ár, en ég ætla mér að keppa á Symetra þegar hún fer af stað aftur,“ sagði Ólafía Þórunn. 

mbl.is