Sjaldan litið betur út

Tiger Woods virkar í frábæru formi þessa dagana.
Tiger Woods virkar í frábæru formi þessa dagana. AFP

Butch Harmon, einn þekktasti golfþjálfari heims og sérfræðingur hjá Sky Sports, segir að Tiger Woods hafi sjaldan litið betur út á golfvellinum en í dag. Hlé var gert á PGA-mótaröðinni í golfi vegna kórónuveirufaraldursins og hefur Tiger því getað tekið sér langþráða pása og einbeitt sér að því að ná sér heilum og æfa sveifluna.

Tiger lék ásamt fyrrverandi leikstjórnandanum Payton Manning í góðgerðaleiknum „The Match“ á dögunum þar sem þeir félagar spiluðu gegn kylfingnum Phil Mickelson og leikstjórnandanumTom Brady. „Tiger virðist hafa grætt mikið á hléinu sem gert var á mótaröðinni og hann virðist hafa náð sér af öllu því sem hefur verið að plaga hann undanfarin ár,“ sagði Harmon í pistli sínum á Sky Sports en Harmon þjálfaði Tiger snemma á atvinnumannaferlinum. 

„Eins og hann hefur sjálfur sagt þá er erfitt fyrir hann að æfa eins og hann gerði þar sem að hann er orðinn 44 ára gamall. Hann þarf hins vegar ekki að æfa jafn mikið og aðrir enda með hæfileika sem ekki allir geta státað af. Í „The Match“ þá fannst mér hann líta frábærlega út og ef ég á að vera hreinskilinn hefur hann sjaldan litið betur út í seinni tíð,“ bætti Harmon við en PGA-mótaröðin í golfi fer eftir af stað eftir rúmlega viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert