Handboltalandsliðsmaður á sama skori og margfaldur meistari

Óðinn Þór Ríkharðsson í landsleik.
Óðinn Þór Ríkharðsson í landsleik. mbl.is/Hari

Handknattleiksmaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson er á meðal þátttakenda á Golfbúðarmótinu í golfi sem hófst á Hólmsvelli í Leiru í gær en mótið er annað mótið á mótaröð Golfsambands Íslands á árinu 2020.

Óðinn Þór, sem er atvinnumaður í handknattleik og á að baki fjölmarga landsleiki, er á mála hjá danska liðinu GOG og lék nokkuð vel í gær í Leirunni og var í efri hlutanum eftir fyrsta hring.

Lék handboltamaðurinn á fimm höggum yfir pari, á sama skori og margfaldur Íslandsmeistari Axel Bóasson, sem vann einmitt fyrsta mót GSÍ-mótaraðarinnar í síðasta mánuði.

Óðni Þór er augljóslega margt til lista lagt en hann þótti á meðal efnilegustu kylfinga landsins á árum áður.

Fylgjast má með gangi mála á Golfbúðarmótinu hér.

mbl.is