Rose-hjónin búa til mótaröð fyrir konur

Justin Rose hefur unnið tíu mót í PGA-mótaröðinni og ellefu …
Justin Rose hefur unnið tíu mót í PGA-mótaröðinni og ellefu mót á Evrópumótaröðinni á sínum ferli. AFP

Ólympíumeistarinn Justin Rose hefur ásamt eiginkonu sinni, Kate, komið á fót mótaröð fyrir konur sem ætluð er breskum kylfingum meðan stóru mótaraðirnar hjá konunum liggja enn niðri. 

PGA-mótaröðin hefst næsta fimmtudag og þar verður Justin Rose á meðal keppenda. Hins vegar hefjast mótaraðirnar hjá konunum ekki fyrr en eftir tvo mánuði. 

Sjö mót eru fyrirhuguð á Bretlandseyjum breska kvenkylfinga frá 18. júní til 31. júlí og verða kostuð af Rose-hjónunum. 

Sky Sports kemur til með að sýna frá mótunum og þau fara fram á þekktum golfvöllum. 

Rose segist vonast til þess að mótaröðin geti hjálpað breskum konum á framabrautinni í golfinu og segir tækifærin yfirleitt hafa verið fleiri fyrir karlana en konurnar. 

„Ekki er hægt að aðskilja golf hjá körlum og konum í þeim skilningi að kylfingarnir eiga sér sömu drauma frá upphafi en hins vegar eru tækifærin og umgjörðin með ólíkum hætti,“ segir Rose. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert