Fyrsta mótið síðan í byrjun mars

Rory McIlroy á æfingahringnum í dag fyrir Charles Schwab Challenge.
Rory McIlroy á æfingahringnum í dag fyrir Charles Schwab Challenge. AFP

PGA-mótaröðin í golfi hefst á nýjan leik á fimmtudaginn þriggja mánaða hlé sem gert var vegna kórónuveirunnar. 

Charles Schwab Challenge fer fram á Colonial-golfsvæðinu í Fort Worth í Texasríki og eru flestir af bestu kylfingum heims skráðir til leiks. 

Erfitt er að spá í spilin þar sem menn eru ekki í leikæfingu en áhuginn á mótinu er mikill enda eru fáar íþróttir í boði í sjónvarpi fyrir íþróttaunnendur í Bandaríkjunum eins og sakir standa. 

Um 1,5 milljónir dollara eru í boði fyrir sigurvegarann og því eftir nokkru að slægjast. Margir snjallir kylfingar eru um hituna en segja má að flestir bestu kylfingar heims séu með ef frá er talinn Tiger Woods. Hjá veðbönkum þykir Rory McIlroy líklegastur og Jon Rahm kemur þar á eftir. 

Síðasta mót sem fór fram á mótaröðinni var Arnold Palmer Invitational sem fram fór á Flórída 5. - 8. mars. Englendingurinn Tyrrell Hatton braut þá ísinn og vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni en hann hefur notið velgengni á Evrópumótaröðinni. 

Bestu kylfingar heims fá nú tíma til að koma sér í gírinn en þegar líður á sumarið tekur meiri alvara við. PGA-meistaramótið verður snemma í ágúst og Fedex-úrslitakeppnin í framhaldinu sem lýkur með Tour Championship í byrjun september. 

Í september er einnig stefnt að því að keppa um Ryder-bikarinn og Opna bandaríska meistaramótið hefst um miðjan september. 

Masters á svo að fara fram á Augusta National 12 - 15. nóvember en þremur þessara risamóta var frestað en því fjórða og elsta, Opna breska meistaramótinu, var aflýst. 

mbl.is