Ný taktík hjá Ryder-liði Bandaríkjanna

Fyrirliðarnir Steve Stricker og Padraig Harrington.
Fyrirliðarnir Steve Stricker og Padraig Harrington. AFP

Bandaríkjamenn hafa ákveðið að breyta starfsháttum sínum þegar kemur að því að velja lið sitt fyrir keppnina um Ryder-bikarinn. 

Þrátt fyrir að heimsklassakylfingar séu framleiddir með reglulegu millibili í Bandaríkjunum hefur þeim gengið erfiðlega að vinna Ryder-bikarinn á þessari öld. Hefur það aðeins gert tvisvar á öldinni og Evrópa hefur unnið níu af síðustu tólf keppnum. 

Lengi vel gátu fyrirliðarnir/liðsstjórarnir valið tvo leikmenn en hinir tíu unnu sig inn í liðið með frammistöðu sinni á stærstu mótaröðunum. Undanfarið voru þeir átta sem unnu sig inn í liðið og fjórir voru valdir. 

Í þetta skiptið mun Steve Stricker, fyrirliði Bandaríkjanna, hins vegar fá að velja sex kylfinga eða helming liðsins. 

Stefnt er að því að keppnin fari fram 25.-27. september á Whistling Straits-vellinum í Wisconsin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert