Átján ára Mosfellingur lagði Harald að velli

Rúnar Arnórsson er ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni.
Rúnar Arnórsson er ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Karl Karlsson, átján ára gamall kylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar, gerði sér lítið fyrir og vann sigur gegn atvinnukylfingnum Haraldi Franklín Magnús í riðlakeppni Íslandsmótsins í holukeppni sem hófst á Jaðarsvelli á Akureyri í dag. Haraldur er í slæmri stöðu en hann þarf nú að treysta á úrslit í öðrum leikjum til þess að eiga von um að komast upp úr riðli 3 og í átta liða úrslit keppninnar. 

Alls er leikið í átta, fjögurra manna riðlum, en aðeins mun efsti maður hvers riðils komast áfram í átta liða úrslitin. Þá er Rúnar Arnórsson, ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni, í vænlegri stöðu en hann vann báða leiki sína í dag. Þá er Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson einnig í þægilegri stöðu í efsta sæti síns riðils með 2 stig, sem og atvinnukylfingurinn Axel Bóasson.

Í kvennaflokki er einnig hart barist en þar eru atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinstóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir allar í þægilegri stöðu með 2 stig eftir fyrstu tvo leiki sína. Saga Traustadóttir, sem á titil að verja á Akureyri, er einnig í efsta sæti síns riðils með 2 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Á morgun fer svo fram þriðja umferð mótsins og þá skýrist hvaða kylfingar fara áfram í átta liða úrslit keppninnar sem verða einnig spiluð á morgun. Á sunnudaginn ráðast svo úrslitin en undanúrslitin hefjast klukkan 8 karlamegin og 8:16 kvennamegin. Úrslitin fara svo fram eftir hádegi í karla- og kvennaflokki.

Valdís Þóra Jónsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir …
Valdís Þóra Jónsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru allar með 2 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Ljósmynd/seth@golf.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert