Atvinnukylfingarnir sjóðheitir á Akureyri

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjar vel á Akureyri.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjar vel á Akureyri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmótið í holukeppni hófst á Jaðarsvelli á Akureyri í morgun og fyrstu umferðinni er að ljúka en þar er keppt í riðlum.

Alls eru 32 keppendur í átta riðlum í karlaflokki og 27 keppendur í sjö riðlum í kvennaflokki. Atvinnukylfingarnir eru allir með og fara undantekningalaust vel af stað á mótinu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var fyrst allra til að vinna sinn leik þegar hún sigraði Írisi Lorange Káradóttur 7/6 (með sjö holu forskot þegar sex voru eftir). Með þeim í riðli eru Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Arna Rún Kristjánsdóttir en einn keppandi kemst áfram úr hverjum riðli.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir vann Auði Sigmundsdóttur (8/6) og Valdís Þóra Jónsdóttir vann Bjarneyju Ósk Harðardóttur (4/3).

Haraldur Franklín Magnús var fyrstur atvinnukarlanna til að vinna sinn leik en hann sigraði Theodór Emil Karlsson 6/5. Axel Bóasson vann Inga Þór Ólafsson 6/4 og Guðmundur Ágúst Kristjánsson vann Helga Snæ Björgvinsson 5/3.

Önnur umferð hefst núna klukkan 12.30 með viðureign Guðmundar Ágústar við Tómas Eiríksson Hjaltested.

mbl.is