Atvinnukylfingar mætast á Akureyri

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir mætast í undanúrslitum …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir mætast í undanúrslitum Íslandsmótsins í holukeppni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK, sem jafnframt er ríkjandi Íslandsmeistari, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR mætast í undanúrslitum Íslandsmótsins í holukeppni sem fram fer á Jaðarvelli á Akureyri um helgina.

Guðrún Brá vann nokkuð þægilegan sigur gegn Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur í átta liða úrslitum á meðan Ólafía Þórunn lagði ríkjandi Íslandsmeistara í holukeppni, Sögu Traustadóttur, að velli. Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL er hins vegar úr leik eftir tap fyrir Evu Karen Björnsdóttur í bráðabani en Eva mætir Ragnhildi Kristinsdóttur í hinu undanúrslitaeinvíginu.

Í karlaflokki mætast einnig atvinnukylfingar í undanúrslitum þar sem Axel Bóasson, GK, og Ólafur Björn Loftsson, GKG, mætast. Ólafur Björn lagði Harald Franklín Magnús að velli í átta liða úrslitum á meðan Aexl lagði Andra Þór Björnsson. Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Hákon Örn Magnússon.

Undanúrslitin hefjast á morgun klukkan 8 og úrslitaleikirnir fara fram eftir hádegi.

mbl.is