Axel og Ólafía Íslandsmeistarar

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Axel Bóasson eru Íslandsmeistarar í holukeppni.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Axel Bóasson eru Íslandsmeistarar í holukeppni. Ljósmynd/Golf.is

Axel Bóasson, GK, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, eru Íslandsmeistarar í holukeppni í golfi en mótið fór fram á Jaðarvelli á Akureyri um helgina. Axel lagði Hákon Örn Magnússon, GR, að velli í úrslitum á meðan Ólafía Þórunn sigraði Evu Karen Björnsdóttur, GR.

Axel hafði betur gegn Hákoni Erni, 1:0, en Axel sló atvinnukylfinginn Ólaf Björn Loftsson úr leik í undanúrlitum og Andra Þór Björnsson í átta liða úrslitunum. Þetta var í annað sinn sem Axel fagnar sigri á Íslandsmótinu í holukeppni. 

Axel Bóasson er Íslandsmeistari í holukeppni 2020.
Axel Bóasson er Íslandsmeistari í holukeppni 2020. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alltaf gaman á Akureyri

„Mér finnst gaman alltaf gaman að spila hér á Akureyri, þegar ég var yngri þá var þetta minn uppáhaldsvöllur. Eftir að þeir breyttu vellinum þá varð hann enn betri. Það eru einhverjir galdrar við Akureyri og að vera hérna og það hefur góð áhrif.

Ég sigraði í fyrsta sinn á Íslandsmótinu í holukeppni hér á þessum velli árið 2015 og það var gaman að upplifa þetta á ný. Þetta mót er hrikalega erfitt líkamlega og andlega. Ég var alveg búinn á því eftir laugardaginn en spennan í úrslitaleiknum á milli okkar Hákons hélt mér við efnið.

Við áttum báðir góða kafla í leiknum og náðum að halda þessu jöfnu og það var virkilega skemmtilegt,“ sagði Axel Bóasson í samtali við golf.is eftir sigurinn í dag.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vann nokkuð örugglega í kvennaflokki.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vann nokkuð örugglega í kvennaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öruggt hjá Ólafíu

Þá vann Ólafía Þórunn 4:3-sigur gegn Evu Karen í úrslitum en Ólafía lagði atvinnukylfinginn Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur að velli í undanúrslitum og Sögu Traustadóttur, sem átti titil að verja, í átta liða úrslitum keppninnar. Þetta var í þriðja sinn sem Ólafía verður Íslandsmeistari í holukeppni.

„Mér fannst þetta mjög gott mót og holukeppnin er alltaf skemmtileg. Það er eitthvað við staðinn, Akureyri og Jaðarsvöll, sem heillar mig. Ég veit ekki hvað það er en ég elska að spila hérna. Ég undirbjó mig vel fyrir leikinn gegn Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í undanúrslitunum. Þar brenndi ég nokkrar heilasellur.

Ég spilaði heilt yfir mjög vel í þessu móti en í úrslitaleiknum fann ég að ég hefði getað gert aðeins betur. Við höfum öll gott af því að keppa við þessar aðstæður sem eru í heiminum í dag. Íslandsmót eru alltaf stór og það var meira undir í þessu móti en í venjulegu stigamóti.

Ég veit að ég mun ekki keppa á mörgum mótum á Íslandi á næstunni og það var gaman að fá þetta tækifæri og landa Íslandsmeistaratitli,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í samtali við golf.is eftir sigurinn í dag.

mbl.is