Hvorugur í gegnum niðurskurð

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmund­ur Ágúst Kristjáns­son og Haraldur Franklín Magnús fóru hvorugur í gegnum niðurskurðinn eftir annan hring á opna Austurríska mótinu sem haldið er af Evr­ópu- og Áskor­enda­mótaröðinni. Annar hringurinn var spilaður í gær og féllu þar báðir Íslendingarnir úr leik.

Guðmund­ur fór virki­lega vel af stað á fyrsta hring í fyrradag og lék hring­inn á tveim­ur högg­um und­ir pari, alls 70 högg­um, og var jafn í 30. sæti eft­ir dag­inn. Það fór hins veg­ar allt í baklás hjá hon­um í gær, hann fékk fjóra fugla en einnig fjóra skolla og tvo tvö­falda skolla og lék hring­inn á alls 77 högg­um eða fimm yfir pari. Hann lék því samanlagt á þremur höggum yfir pari og lauk keppni í 103. sæti, fjórum höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.

Har­ald­ur Frank­lín átti slæm­an fyrsta hring, fékk fimm skolla og tvo tvö­falda og lauk hringn­um á 81 höggi eða níu yfir pari. Hann bætti sig til muna á öðrum degi, lék hringinn á 71 höggi í gær eða á höggi undir pari. Hann lauk því keppni á samtals átta höggum yfir og varð jafn í 130. sæti.

mbl.is