Meistararnir féllu úr leik

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í liði Keilis.
Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í liði Keilis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Golfklúbburinn Keilir og Golfklúbbur Reykjavíkur mætast í úrslitum á Íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki á morgun, en undanúrslitin fóru fram í dag á Leirdalsvelli og Urriðavelli. GKG er ríkjandi meistari og því nýr meistari krýndur á morgun. 

Keilir hafði betur gegn Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar með 3,5 vinningi gegn 1,5. Golfklúbbur Reykjavíkur vann á sama tíma Golfklúbb Mosfellsbæjar, 4:1. 

Þórdís Geirsdóttir, Signý Arnórsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Hafdís Jóhannsdóttir, Helga Kristín Einarsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir skipa lið Keilis og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Eva Karen Björnsdóttir og Saga Traustadóttir skipa lið Golfklúbbs Reykjavíkur. 

Í karlaflokki mætast Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar og Keilir í úrslitum. GKG hafði betur gegn Golfklúbbi Reykjavíkur með 3,5 vinningi gegn 1,5 og Keilir vann Golfklúbb Mosfellsbæjar með sömu tölum. 

Hlynur Bergsson, Kristófer Orri Þórðarson, Ólafur Björn Loftsson, Egill Ragnar Gunnarsson, Aron Snær Júlíusson, Ragnar Már Garðarson og Bjarki Pétursson skipa lið Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og Bjarni Sigþór Sigurðsson, Daníel Steinarsson, Vikar Jónasson, Svanberg Addi Stefánsson, Axel Bóasson, Birgir Björn Magnússon og Rúnar Arnórsson skipa lið Keilis. 

mbl.is