Íslandsmeistarinn mun ekki verja titilinn

Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson verður ekki með um helgina.
Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson verður ekki með um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Íslandsmeistari karla í golfi árið 2019, verður ekki á meðal keppenda á Íslandsmótinu sem fram fer 6. til 9. ágúst hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

Guðmundur verður á Thisted Forsikring-mótinu í Danmörku en það er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Guðmundur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrra er hann vann á heimavelli, mótið var haldið hjá Golfklúbbi Reykjavíkur í Grafarholtinu.

Íslandsmeistari síðustu tveggja ára í kvennaflokki, Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili, mætir til leiks um næstu helgi. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður einnig með en Valdís Þóra Jónsdóttir er að jafna sig af meiðslum og er í hléi frá keppni.

mbl.is