Nýtt nafn ritað á bikarinn

Haraldur Franklín Magnús bar sigur úr býtum.
Haraldur Franklín Magnús bar sigur úr býtum. Ljósmynd/nærmynd.is

Góðgerðarmótið skemmtilega, Einvígið á Nesinu, fór fram á Nesvellinum á Seltjarnarnesi í gær venju samkvæmt. Hert tilmæli sóttvarnalæknis settu þó sinn svip á mótshaldið því engir áhorfendur voru leyfðir í þetta skiptið.

Þeir hafa í gegnum árin myndað góða stemningu á mótinu. Meðal annars vegna þess að þeir kylfingar sem fá boð um að keppa á mótinu eru allir í sama ráshópi og áhorfendur því á sama stað en ekki dreifðir eins og alla jafna á golfmótum.

Hvað um það, snjallir kylfingar þáðu boð um að keppa og láta gott af sér leiða. Von, félag til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildar E6 á Landspítalanum í Fossvogi, fær að njóta góðs af mótinu í ár. Er hún einnig kölluð Covid-deild Landspítalans. Í tilkynningu frá Nesklúbbnum kom fram ekki að hafi fundist styrktaraðili fyrir mótið í þetta sinn og er það visst áhyggjuefni. Í tilkynningunni kom fram að forráðamenn klúbbsins telja það einfaldlega tengjast því hversu viðkvæmt efnahagsástandið er þetta sumarið. Þess í stað voru einstaklingar og fyrirtæki hvött til að leggja málefninu lið með frjálsum framlögum.

Fjögur efstu úr GR

Haraldur Franklín Magnús, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, sigraði á mótinu og er það í fyrsta skipti sem hann sigrar á mótinu en Einvígið á Nesinu hefur verið haldið árlega frá árinu 1997.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þá er fyrirkomulagið óvenjulegt. Nesklúbburinn býður tíu snjöllum kylfingum að vera með. Eru þau öll í sama ráshópi og einn dettur út á hverri holu. Er gripið til bráðabana eftir hverja holu ef þörf er á að útkljá hver fellur úr keppni og þess vegna er mótið einnig kallað „shoot out“. Þá standa einungis tveir eftir á 9. teig og í þetta skiptið voru það Haraldur og félagi hans úr GR, Andri Þór Björnsson.

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir náði lengst þeirra þriggja kvenna sem voru í hópnum en hún féll úr keppni á 7. flötinni. Í 3. sæti hafnaði Hákon Örn Magnússon og GR-ingar náðu því fjórum efstu sætunum.

Úrslit:

1. sæti: Haraldur Franklín Magnús.

2. sæti: Andri Þór Björnsson.

3. sæti: Hákon Örn Magnússon.

4. sæti: Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir.

5. sæti: Björgvin Sigurbergsson.

6. sæti: Bjarki Pétursson.

7. sæti: Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

8. sæti: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

9. sæti: Ólafur Björn Loftsson.

10. sæti: Axel Bóasson.

Von
» Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning 512-26-633, kt: 580169-7089.

» Einnig eru styrktarlínur sem hægt er að hringja í:
9071502 = 2.000 krónur.
9071506 = 6.000 krónur.
9071510 = 10.000 krónur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »