„Hef aldrei séð völlinn svona góðan“

Guðrún Brá Björgvinsdóttir á Hlíðavelli snemma í sumar. Hún er …
Guðrún Brá Björgvinsdóttir á Hlíðavelli snemma í sumar. Hún er ánægð með flatirnar nú þegar Íslandsmótið er að hefjast. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr Keili, á möguleika á að vinna Íslandsmótið þriðja árið í röð, en mótið hófst í morgun á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. 

Guðrún á rástíma kl 15:50 í dag. Hún hefur leikið vel í sumar og kæmi það verulega á óvart ef hún yrði ekki í baráttunni um sigurinn á sunnudag. 

„Maður kemur aldrei í mót án þess að ætla sér að vinna,“ sagði Guðrún þegar mbl.is ræddi við hana á blaðamannafundi í gær en Íslandsmótið fer nú í fyrsta skipti fram á Hlíðavelli. 

„Mér líst mjög vel á aðstæður. Þeir hafa gert frábæra hluti og ég verð að segja að ég hef aldrei séð völlinn svona góðan. Það er því mjög spennandi að spila hérna. Yfirleitt hafa verið mót hér á vegum GSí í gegnum tíðina. Til dæmis Símamótið. Maður hefur því alveg spilað hérna þótt Íslandsmótið hafi ekki verið haldið hér áður.“

Fyrri hluti vallarins hefur lengi verið í notkun en síðari níu holurnar eru nær okkur í tíma. „Ég hef aldrei beinlínis horft á það þannig. Þegar maður er komin út á nesið þá er það aðeins öðruvísi en ekki þannig að það skipti máli eða hafi áhrif. Hér er búið að gera frábæra hluti varðandi flatirnar og þar að auki hefur rignt. Völlurinn er því aðeins mýkri en hann er vanalega sem er skemmtilegt,“ sagði Guðrún Brá. 

mbl.is