„Þeir hafa gert frábæra hluti hérna“

Andri Þór Björnsson.
Andri Þór Björnsson. ljósmynd/GSÍ

Andri Þór Björnsson, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, er afar ánægður með Hlíðavöll í Mosfellsbæ þar sem Íslandsmótið í golfi hefst í dag. 

„Völlurinn er í virkilega góðu standi og þau eiga mikið lof skilið hérna í Mosfellsbænum. Völlurinn er frábær. Hann er allt öðruvísi heldur en þegar við spiluðum hann í maí [á mótaröðinni]. Brautirnar eru þrengri og meiri kargi,“ sagði Andri Þór en Hlíðavöllur var hannaður af tveimur hönnuðum og liðu mörg ár á milli þess að fyrri níu holurnar voru teknar í notkun og þær seinni níu. Andri finnur ekki mikinn mun á flötunum um þessar mundir. 

„Þú finnur lítið fyrir því þótt seinni hlutinn sé aðeins harðari. Á heildina litið er hraðinn á flötunum mjög jafn. Þeir hafa gert frábæra hluti hérna.“

Andri hefur verið einn besti kylfingurinn á íslensku mótaröðinni í nokkur ár en hefur þó ekki orðið Íslandsmeistari. Er ekki kominn tími á að vinna stóra bikarinn? „Jú jú ég ætla að vona það. En maður spilar bara eina holu í einu. Gamla tuggan. Í gegnum árin hefur þessi völlur hentað mér vel. Vonandi verður svo áfram. Ég hef verið duglegur í sumar og mér líður vel. Ég er því bjartsýnn en maður veit að allt getur gerst. Miðað við hvernig ég hef spilað undanfarið þá hlakka ég mjög til,“ sagði Andri Þór Björnsson sem fer á teig klukkan 8:10 í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert