Tveir fóru undir 70 höggin

Tómas Eiríksson Hjaltested á hringnum í dag.
Tómas Eiríksson Hjaltested á hringnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tómas Eiríksson Hjaltested úr GR og Aron Snær Júlíusson úr GKG hafa skilað inn besta skorinu á fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. 

Léku þeir báðir á 69 höggum og eru efstir en ekki hafa allir lokið leik í karlaflokki í dag. Eru þeir á þremur höggum undir pari vallarins. 

Fyrstu kylfingarnir voru ræstir út snemma í morgun en konurnar eru smám saman að fara af stað þegar þetta er skrifað. 

Aron Snær Júlíusson
Aron Snær Júlíusson ljósmynd/GSÍ

Staðan er áhugaverð því aðeins höggi á eftir þeim koma þrír kylfingar: VIktor Ingi Einarsson úr GR, Rúnar Arnórsson úr Keili og heimamaðurinn Sverrir Haraldsson úr GM. 

Axel Bóasson, þrefaldur Íslandsmeistari úr Keili, skilaði inn skori upp á 71 högg eins og GR-ingarnir Sigurður Bjarki Blumenstein og Böðvar Bragi Pálsson. 

Af þeim sem lokið hafa leik eru því átta undir parinu. 

GR-ingarnir Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús áttu fremur erfitt uppdráttar á sinn mælikvarða og léku á 75 höggum. 

Sigurður Bjarki Blumenstein á hringnum í dag.
Sigurður Bjarki Blumenstein á hringnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is