Fín byrjun hjá Tiger Woods

Tiger Woods á hringnum í gær.
Tiger Woods á hringnum í gær. AFP

Ástralinn Jason Day og Bandaríkjamaðurinn Brendan Todd eru efstir að loknum fyrsta keppnishring á PGA-meistaramótinu, fyrsta risamóti ársins, hjá körlunum í golfinu. 

Day og Todd léku á fimm höggum undir pari Harding Park vallarins í San Francisco. Baráttan er hörð því níu kylfingar eru aðeins höggi á eftir. Í þeim hópi er Brooks Koepka sem unnið hefur PGA-meistaramótið síðustu tvö ár. 

Tiger Woods byrjaði vel og er á tveimur höggum undir pari. Hann hefur aðeins leikið á einu móti frá því PGA-mótaröðin fór aftur af stað í júní. Fín byrjun hjá Tiger sem yfirleitt er varkár á fyrsta hring á risamótunum. 

Áhorfendum er meinaður aðgangur að mótinu og stemningin því öllu minni en á risamótum yfirleitt. 

mbl.is