Frábær spilamennska Borgnesingsins

Bjarki Pétursson.
Bjarki Pétursson. Ljósmynd/seth@golf.is

Bjarki Pétursson úr GKG tók í dag forystuna á Íslandsmótinu í golfi sem nú er hálfnað í Mosfellsbæ og lýkur á sunnudag. 

Bjarki lék á pari Hlíðavallar í gær en í dag skilaði hann inn skori upp á 66 högg og er samtals á sex höggum undir pari vallarins. Bjarki fékk sjö fugla, ellefu pör og einn skolla á hringnum. Borgnesingurinn byrjaði daginn með þvílíkum látum því hann fékk fugla á fyrstu fjórar holurnar. 

Þrefaldur Íslandsmeistari úr Keili, Axel Bóasson, er einnig tekinn við sér og lék á 68 höggum í dag. Er hann aðeins höggi á eftir Bjarka. Axel fékk fimm fugla á hringnum, tólf pör og einn skolla. 

Hinn 18 ára gamli Tómas Eiríksson Hjaltested úr GR er enn í toppbaráttunni. Hann er samtals á fjórum undir pari og lék á 71 höggi í dag. Eftir fyrsta keppnisdag var hann efstur ásamt Aroni Snær Júlíssyni sem var á 73 höggum í dag. 

Keppnin er hörð því Rúnar Arnórsson úr Keili og Egill Ragnar Gunnarsson GKG eru á þremur undir pari. 

Flestum kom á óvart þegar GR-ingarnir Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús léku á 75 höggum í gær. Þeir léku mun betur í dag og voru á höggi undir pari. En eru átta höggum á eftir Bjarka í 15. - 20. sæti. 

mbl.is