Ragnhildur með tveggja högga forskot

Ragnhildur Kristinsdóttir á Hlíðavelli.
Ragnhildur Kristinsdóttir á Hlíðavelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur er í efsta sæti þegar keppni er hálfnuð í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. 

Ragnhildur hefur skotið þeim Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur úr Keili og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur úr GR aftur fyrir sig. Ragnhildur fékk tvo fugla, fimmtán pör og einn skolla í dag. 

Ragnhildur hefur leikið jafnt og gott golf en hún var á 71 höggi í dag eða á höggi undir pari. Hún er samtals á þremur undir pari. 

Guðrún Brá er samtals á einu höggi undir pari eftir að hafa verið á parinu í dag. 

Ólafía Þórunn missti taktinn í dag. Hún var á 69 í gær á fyrsta hringnum en á 75 höggum í dag. Sex högga sveifla og fyrir vikið er hún þremur höggum á eftir Ragnhildi, á parinu samtals. Ólafía var ekki í mjög slæmum málum eftir fimmtán holur í dag en þá var hún á einu höggi yfir pari. Hún fékk hins vegar skolla á bæði 16. og 17. braut. 

Þessar þrjár eru í sérflokki og munu berjast um sigurinn en næstu kylfingar eru á átta höggum yfir pari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert