Tvö vallarmet á innan við viku

Bjarki Pétursson.
Bjarki Pétursson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgnesingurinn Bjarki Pétursson er í ham á golfvöllum landsins þessa dagana og hefur tvívegis sett vallarmet á innan við viku í tveimur mismunandi kjördæmum. 

Bjarki, sem leikur fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar, setti vallarmet af hvítum teigum á Hlíðavelli í Mosfellsbæ í dag á öðrum keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi. Lék hann á 66 höggum. 

Síðasta sunnudag tók Bjarki þátt í Opna Nettó-mótinu á sínum gamla heimavelli í Borgarnesi og lék þá á gulum teigum. Setti hann vallarmet af gulum teigum þegar hann lék á 64 höggum. 

Bjarki var á sex höggum undir pari í Mosfellsbænum en á sjö undir pari í Borgarnesi. 

mbl.is