„Margir eiga möguleika“

Bjarki Pétursson
Bjarki Pétursson mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar segir stöðuna vera mjög opna fyrir lokadag Íslandsmótsins í golfi á morgun í ljósi þess að veðurspáin er heldur slæm. 

Bjarki hefur tveggja högga forskot og er samtals á níu höggum undir pari. 

„Þetta gekk ekki alveg jafn auðveldlega fyrir sig og í gær en var fínn hringur og gott að koma aftur inn á skori sem er undir 70 höggum. Það er bara spennandi dagur fram undan,“ sagði Bjarki þegar mbl.is ræddi við hann í Mosfellsbænum í dag. 

„Staðan er góð en miðað við hvernig veðurspáin er á morgun geta menn átt möguleika sem eru mörgum höggum á eftir ef þeir spila lokahringinn vel. Í því ljósi held ég að margir eigi möguleika á morgun en svo kemur í ljós hver verður jákvæður og heldur þetta út.“

Bjarki hefur ekki orðið Íslandsmeistari í fullorðinsflokki en hann hefur kynnst því að vera í síðasta ráshópnum á Íslandsmóti. Var hann í síðasta ráshópnum á Íslandsmótinu á Akureyri árið 2016. Paraði þá allar átján holurnar og Birgir Leifur Hafþórsson varð meistari og vann með einu höggi. Sú reynsla nýtist honum væntanlega á morgun.

„Já, já, það var lærdómsríkur hringur. Líklega hafa fáir fengið átján pör á lokadegi á Íslandsmótinu eins og ég gerði þá. Á morgun væri frábært að fá svona fjórtán pör og fjóra fugla með því en við sjáum hvað setur. Ég hlakka til. Svona aðstæður eru það sem maður æfir fyrir hvort sem maður fær bikarinn í hendurnar eða ekki.“

Bjarki lék fyrsta hringinn á parinu en setti vallarmet í gær á sex undir pari. Í dag fékk hann einnig marga fugla og lék á 69 höggum. Hvað breyttist eftir fyrsta daginn? „Fyrsti dagurinn var góður fyrir utan tvö högg. Það má eiginlega segja það en þau reyndust dýr. Ég ætlaði að vera skynsamur á teig á 5. holunni (par 5-hola, gamla 8. holan hjá Kili). Tók því járn þar og sló út fyrir vallarmörk. Það var blaut tuska í andlitið og ég fékk tvöfaldan skolla. En vissulega sló ég fleiri slæm högg fyrsta daginn en í gær og í dag en að öðru leyti hefur spilamennskan verið svipuð,“ sagði Bjarki Pétursson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert