Bjarki sló mótsmetið

Bjarki fagnar sigrinum í gær.
Bjarki fagnar sigrinum í gær. Ljósmynd/GSÍ

Bjarki Pétursson skrifaði nýjan kafla í íþróttasöguna í Borgarnesi þegar hann varð Íslandsmeistari í golfi í Mosfellsbænum í gær. Á hinu niðurdrepandi ári 2020 hefur íþróttafólki úr Borgarnesi orðið margt að vopni en körfuboltakonurnar urðu bikarmeistarar í vetur og því hafa tveir stórir titlar skilað sér í bæinn.

Hvorugan þeirra höfðu Borgnesingar unnið fyrr. Hér skal því haldið til haga að Bjarki keppir nú fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar og er þriðji Íslandsmeistari karla sem kemur úr klúbbnum. Áður hafa þeir Birgir Leifur Hafþórsson og Sigmundur Einar Másson orðið Íslandsmeistarar undir merkjum GKG fyrir utan Bjarka.

,,Jú jú, það má alveg segja það enda bý ég í Borgarnesi og hef ekki flutt úr Borgarnesi fyrir utan þann tíma þegar ég fór í háskóla til Bandaríkjanna og til Þýskalands á sumrin. Ég keppti alltaf fyrir GB en elti þjálfara minn, Arnar Má Ólafsson, í GKG enda hef ég unnið lengi með honum og var hjá honum í Þýskalandi. Auk þess gerir GKG mikið fyrir sína kylfinga og þar er afreksstefnan ein sú besta á Íslandi,“ sagði Bjarki.

Fékk fimm fugla í röð

Bjarki varð Íslandsmeistari með stæl því hann sló mótsmetið ef miðað er við höggafjölda undir pari. Bjarki lauk leik á samtals þrettán höggum undir pari og tryggði það með snyrtilegum fugli á lokaholunni. Þórður Rafn Gissurarson úr GR setti metið þegar hann lék á 12 undir pari á Akranesi árið 2015 og Axel Bóasson úr Keili jafnaði metið í Vestmannaeyjum árið 2018.

Viðtalið við Bjarka í heild sinni og umfjöllunina um Íslandsmótið má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert