Ráðist að vandanum

Bjarki Pétursson
Bjarki Pétursson Ljósmynd/GSÍ

Þegar blaðamaður tók Bjarka Pétursson, Íslandsmeistara í golfi, tali á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á sunnudag, barst í tal hvort Bjarki hefði sofið vel fyrir lokahringinn á mótinu en hann hafði þá forystuna. Bjarki virtist ráða vel við taugastríðið sem fylgt getur því að vera efstur á fjögurra daga móti þar sem keppendur eru úti á velli í liðlega tuttugu klukkustundir samtals.

Bjarki sagðist ekki hafa sofið neitt sérstaklega vel en þó miklu betur en hann gerði við svipaðar aðstæður á árum áður. Upp úr krafsinu kemur að Bjarki glímdi við keppniskvíða sem var á alvarlegu stigi. Með hjálp íþróttasálfræðings hefur hann tekist á við vandann með ágætum árangri.

„Ég get talað af hreinskilni um það að ég svaf ekki jafn vel í nótt og síðustu nætur. Ég átti rosalega erfitt með svefn fyrir mót á árum áður. Ég er að vinna með íþróttasálfræðingi, Paul Dewland, sem býr í Flórída og hef unnið með honum í fimm ár. Þegar hann tók við mér þá svaf ég eiginlega ekki neitt fyrir mót. Fyrir hringina ældi ég á morgnana. Ég var bara í tómu tjóni og ákvað að leita mér hjálpar. Ég vissi að þetta var ekki eðlilegt. Samvinna okkar hefur verið ótrúlega góð,“ sagði Bjarki og hann var í sambandi við Dewland meðan á Íslandsmótinu í Mosfellsbæ stóð.

„Okkar samstarf nú orðið er með þeim hætti í dag að ég hef samband við hann og segi honum hvernig mér líður. Einnig lýsi ég fyrir honum í hvernig í aðstæðum ég er og hvernig ég bregst við. Hann segir mér þá sína skoðun og ráðleggur mér. Hann á hrós skilið fyrir það hversu yfirvegaður ég var á lokahringnum og missti aldrei einbeitinguna,“ sagði Bjarki sem náði að sofa í nokkra tíma aðfaranótt sunnudags. „Já já ég svaf til svona sex og náði að sofa í sex tíma eða svo. Ég gat hins vegar ekki sofið meira þar sem ég var með fiðrildi í maganum,“ útskýrði Bjarki.

Þolinmæði og jákvæðni

Kylfingarnir á Íslandsmótinu fengu ýmsar útgáfur af veðri meðan á mótinu stóð. Aðstæður voru krefjandi þrátt fyrir að Bjarki hafi náð að spila samtals á 13 höggum undir pari. Sálrænt fékk Bjarki góðan meðbyr inn í mótið því nokkrum dögum fyrir mótið, eða helgina áður, lék hann á 64 á mótum bæði á Selfossi og í Borgarnesi. Þótt hann hafi ekki leikið þar á meistaraflokksteigum þá er slíkt skor sterk vísbending um að púttin og stutta spilið sé gott og gefur aukið sjálfstraust.

Viðtalið við Bjarka má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert