Danny úr Caddyshack býður fram krafta sína sem kylfuberi

Reynsluboltinn Matt Kuchar fékk óvænt boð.
Reynsluboltinn Matt Kuchar fékk óvænt boð. AFP

Michael O'Keefe, sem lék kylfuberann Danny Noonan í hinni víðfrægu gamanmynd Caddyshack árið 1980, sækist nú eftir því fjörutíu árum síðar að vera kylfuberi á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. 

Tilkynnti hann þetta á samfélagsmiðlum og hafa fjölmiðlar vestan hafs vakið athygli á færslunni. 

Michael O'Keefe er 65 ára gamall og segist þekkja völlinn sem keppt verður á í mótinu en Opna bandaríska fer fram á Winged Foot nærri New York 17.-20. september. Hann nefnir að hann hafi starfað sem kylfuberi á vellinum á árunum 1971 og 1972. Það hafi meðal annars hjálpað til við að landa hlutverkinu í myndinni. 

Michael O'Keefe segist hafa verið spurður að því áður en hann fékk hlutverkið hvort hann hefði verið kylfuberi og hvort hann væri kylfingur. Hann segist í raun hafa logið því að hann væri kylfingur en hafi með hjálp góðra manna náð að redda sér út úr því við tökur á myndinni. Hafði þá náð að þróa með sér boðlega golfsveiflu. 

O'Keefe hefur beint orðum sínum sérstaklega að kylfingnum Matt Kuchar þegar hann býðst til að vera kylfuberi í mótinu. 

Michael O'Keefe ólst upp í aðeins fimmtán mínútna fjarlægð frá Winged Foot-vellinum og starfaði þar eins og áður segir fyrir tæplega hálfri öld: „Nú nærri því hálfri öld síðar er ég tilbúinn til þess að taka næsta skref sem kylfuberi. Ég tilkynni því að ég er boðinn og búinn til að vera kylfuberi fyrir atvinnumann eða áhugamann í á Opna bandaríska meistaramótinu í ár,“ sagði O'Keefe í samtali við Golf.com. 

Kvikmyndin Caddyshack naut mikilla vinsælda á sínum tíma en þar voru þekktir grínleikarar fyrirferðarmestir: Chevy Chase, Rodney Dangerfield og Bill Murray. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert