Misstu naumlega af úrslitakeppninni um Evrópumeistaratitilinn

Íslenska liðið í Hilversum í Hollandi í dag.
Íslenska liðið í Hilversum í Hollandi í dag. Ljósmynd/Koen Suyk

Karlalandslið Íslands í golfi var einu höggi frá því að komast í úrslitakeppni átta efstu þjóðanna á Evrópumóti áhugakylfinga sem hófst í Hollandi í dag.

Ísland og Austurríki urðu jöfn í forkeppninni í dag á 217 höggum en þar var leikinn 18 holu höggleikur. Austurríki náði áttunda sætinu þar sem fjórða besta skorið var einu höggi betra hjá austurríska liðinu en því íslenska. Því náði fjórði maður Austurríkis með því að fá fugl á 17. holu og örn á 18. holu og komast með því fram fyrir Hákon Örn Magnússon.

Ísland var aðeins tveimur höggum á eftir Frakklandi og Sviss sem enduðu í fjórða og fimmta sætinu, og einu höggi á eftir Danmörku og Ítalíu.

Aron Snær Júlíusson lék á 71 höggi, Dagbjartur Sigurbrandsson og Kristófer Karl Karlsson á 73 höggum og Hákon Örn á 76 höggum.

Fjórtán lið taka þátt í mótinu og fara Þýskaland, Holland, Svíþjóð, Frakkland, Sviss, Danmörk, Ítalía og Austurríki í A-riðilinn þar sem keppt verður um Evrópumeistaratitilinn.

Ísland fer í B-riðilinn og leikur um sæti níu til fjórtán ásamt Eistlandi, Belgíu, Tékklandi, Slóvakíu og Slóveníu. Þar verður um holukeppni að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert