Mun betra skor en búist var við

Justin Thomas og Tiger Woods á hringnum í dag.
Justin Thomas og Tiger Woods á hringnum í dag. AFP

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas er efstur að loknum fyrsta keppnisdegi á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem fram fer á Winged Foot í New York. 

Thomas lék á 65 höggum sem er fimm högg undir pari vallarins sem þykir mjög erfiður og var ekki búist við svo góðu skori. Höggi á eftir eru Bandaríkjamennirnir Patrick Reed og Matthew Wolff ásamt Thomas Pieters frá Belgíu. 

Winged Foot var síðast vettvangur Opna bandaríska árið 2006 og er því orðið nokkuð síðan. Margir af snjöllustu kylfingum heims eru að takast á við völlinn í fyrsta skipti eins og Dustin Johnson, Rory McIlroy og fleiri. Árið 2006 sigraði Geoff Ogilvy á fimm höggum yfir pari. Mótsins er minnst fyrir það að Phil Mickelson og Colin Montgomerie fengu báðir 6 á lokaholunni þegar þeir hefðu getað farið upp fyrir Ogilvy eða jafnað við hann. 

Einnig var búist við því að mótið í ár myndi vinnast á höggafjölda yfir pari og margir sérfræðingar telja að það geti enn orðið raunin þótt skorið hafi verið betra en búist var við í dag. Flatirnar eru erfiðar sem og karginn ef menn hitta ekki brautir. Vindurinn blés ekki að ráði í dag og talið er að skorið muni hækka hratt ef það bætir í vindinn næstu daga. 

Þrír skemmtilegir kylfingar eru á þremur undir pari. Norður Írinn Rory McIlroy, Englendingurinn Lee Westwood og Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku. Westwood lætur sig enn dreyma um að ná sigri á risamóti en er í hópi snjöllustu kylfinga sögunnar sem ekki hafa náð því. McIlroy varð faðir í fyrsta sinn á dögunum og óljóst þótti hversu einbeittur hann yrði í mótinu og byrjaði hann líklega betur en búist var við. 

Dustin Johnson átti í erfiðleikum á Winged Foot í kvöld.
Dustin Johnson átti í erfiðleikum á Winged Foot í kvöld. AFP

Efstu kylfingar heimslistans Dustin Johnson frá Bandaríkjunum og Spánverjinn Jon Rahm eru ekki á meðal efstu manna en Rahm vegnaði þó mun betur. Hann lék á höggi undir pari en Johnson á þremur yfir pari. 

Aðrir valdir kylfingar: 

Xander Schauffele -2

Bryson DeChambeau -1

Tony Finau -1

Rickie Fowler -1

Hideki Matsuyama +1

Webb Simpson +1

Jason Day +2

Jordan Spieth +3

Tiger Woods +3

Justin Rose +3

Gary Woodland +4

Tommy Fleetwood +4

Collin Morikawa +6

Shane Lowry +6

Phil Mickelson +9

Ætlar Lee Westwood að blanda sér í baráttuna?
Ætlar Lee Westwood að blanda sér í baráttuna? AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert