Mikil umskipti á þriðja keppnisdegi

Taugarnar verða þandar hjá Matthew Wolff í kvöld.
Taugarnar verða þandar hjá Matthew Wolff í kvöld. AFP

Mikil umskipti áttu sér stað á þriðja keppnisdegi Opna bandaríska meistaramótsins í golfi í gærkvöldi en úrslitin ráðast á lokahringnum í kvöld. 

Ungur Bandaríkjamaður, Matthew Wolff, er nú orðinn efstur og hefur tveggja högga forskot. Hann átti frábæran hring og notaði aðeins 65 högg. Er hann á samtals fimm höggum undir pari.

Næstur er Bryson DeChambeau á samtals þremur undir pari. Aðeins þrír kylfingar eru enn undir pari en í þriðja sæti er Louis Oosthuisen á höggi undir pari en hann lék á 68 í gær. 

Hvorki Wolff né DeChambeau hafa unnið risamót en Oosthuisen sigraði á Opna breska meistaramótinu árið 2010 og hefur hafnað í 2. sæti á öllum hinum risamótunum. 

Sveiflurnar geta verið miklar á erfiðum Winged Foot vellinum í New York. Patrick Reed var til að mynda efstur fyrir gærdaginn en lék á 77 höggum. Eykur það á spennuna fyrir lokadaginn að slíkar sveiflur geti orðið. Snjallir kylfingar eins og Hideki Matsuyama og Xander Shauffele eru á parinu og Rory McIlroy á höggi yfir pari. 

Bryson DeChambeau er þekktur fyrir að spá og spekúlera í …
Bryson DeChambeau er þekktur fyrir að spá og spekúlera í íþróttinni. Mun nálgun hans skila honum sigri í kvöld? AFP
mbl.is