Þriðji Íslendingurinn úr leik

Ragnar Sigurðsson og félagar eru úr leik.
Ragnar Sigurðsson og félagar eru úr leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

FC København varð þriðja Íslendingaliðið til að mistakast að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld eftir 0:1-tap á heimavelli gegn Rijeka frá Króatíu. 

Kom sigurmarkið á 20. mínútu er hægri bakvörðurinn Peter Ankersen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Er um mikið áfall fyrir danska liðið að ræða en liðið fór alla leið í átta liða úrslit keppninnar á síðustu leiktíð. 

Ragnar Sigurðsson lék allan leikinn fyrir FC København og fékk gult spjald á 62. mínútu. Fyrr í dag féllu Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö úr leik og Hólmar Örn Eyjólfsson með Rosenborg. 

mbl.is