Lokaði augunum og sigraði

Sergio Garcia fagnaði sigrinum vel og innilega eftir að hafa …
Sergio Garcia fagnaði sigrinum vel og innilega eftir að hafa áður verið í mikilli lægð á árinu. AFP

Spánverjanum Sergio Garcia hefur tekist að vinna mót á stærstu mótaröðunum í golfi, PGA- og /eða Evrópumótaröðinni, á hverju ári í áratug eftir að hafa sigrað á Sanderson Farms-mótinu í Mississippi á sunnudagskvöldið. 

Garcia hefur verið í fremstu röð í heiminum í meira en tvo áratugi og sló í gegn fyrir alvöru þegar hann barðist um sigurinn á PGA-meistaramótinu árið 1999 gegn Tiger Woods. 

Garcia hefur nú unnið atvinnumannamót á þremur mismunandi áratugum og hefur samtals verið í 450 vikur á meðal tíu efstu á heimslistanum. 

Garcia hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar á þessu ári og hefur púttað hörmulega miðað við kylfing í hans gæðaflokki. Spánverjinn er þekktur fyrir að slá vel en á árinu hafa um 250 kylfingar púttað betur á PGA-mótaröðinni ef allir eru taldir með sem komast inn á mótin. 

Það breyttist í síðustu viku þegar Garcia púttaði mjög vel og sigraði á samtals 19 höggum undir pari. Garcia brá á það ráð að loka augunum þegar hann púttaði. Hafði þá áður vitaskuld grandskoðað púttlínuna og aðstæður. 

Sagði hann á blaðamannafundum að með þessu fengi hann betri tilfinningu fyrir púttunum og lengdarstjórnunin yrði betri. 

Ekki er það einsdæmi að kylfingur grípi til þessara ráðstafana í púttum en líklega eru fá dæmi um jafn mikla og árangursríka breytingu. 

mbl.is