Hatton á meðal tíu efstu

Tyrrell Hatton.
Tyrrell Hatton. AFP

Englendingurinn Tyrrell Hatton hefur með frammistöðu sinni síðustu árin skipað sér í hóp bestu kylfinga heims. 

Hatton sigraði í gær á sterku móti á Evrópumótaröðinni, BMW Championship, sem fram fór á Wentworh-vellinum á Englandi. Með sigrinum fór Hatton í 10. sæti heimslistans. 

Eru þetta tímamót hjá Hatton því hann hefur ekki áður náð að vera á meðal tíu efstu á heimslistanum. Eins og undanfarnar vikur er Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson í efsta sæti listans. 

Hatton sigraði nokkuð örugglega í gær en hann var samtals á 19 höggum undir pari Wentworth- vallarins. Sigraði með fjögurra högga mun. 

Hatton hefur unnið tvö sterk mót á árinu því hann sigraði á Arnold Palmer Invitational mótinu á PGA-mótaröðinni í mars, eða rétt áður en keppni var frestað í nokkra mánuði vegna kórónuveirunnar. 

Hatton er 28 ára og hefur níu sinnum sigrað á atvinnumannamótum. Hann keppti í Ryder-bikarnum í fyrsta sinn árið 2018 og verður að öllum líkindum aftur í liði Evrópu þegar til stendur að keppnina fari fram á næsta ári eftir að hafa verið frestað á þessu ári.

mbl.is