Dustin Johnson með veiruna

Dustin Johnson
Dustin Johnson AFP

Efsti kylfingur heimlistans í golfi, Dustin Johnson, hefur greinst með kórónuveiruna og er kominn í einangrun. 

Smitið ætti þó ekki að hafa mikil áhrif á PGA-mótaröðina því Johnson hefur tekið sér frí síðustu vikurnar og því ekki verið innan um keppinautana. Johnson sigraði í FedEx úrslitakeppninni í september og varð fyrir vikið rúmlega tveimur milljörðum ríkari. 

Johnson ætlaði hins vegar að vera með á næsta móti á mótaröðinni sem hefst á fimmtudaginn og hefur því dregið sig úr keppni. Í tilkynningu frá PGA-mótaröðinni fann Johnson fyrir einkennum í vikunni, fór í skimun, og reyndist jákvæður. 

Stóru mótaraðirnar lögðu niður keppni frá því í mars og fram í júni en þá hófst aftur keppni á PGA-mótaröðinni. Hafa mótin farið fram síðan þá án áhorfenda. Hefur það gengið án stóráfalla hingað til og fáir kylfingar, eða fólk í þeirra starfsliði, hafa smitast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert