Adam Scott með veiruna

Adam Scott er í hópi þekktustu íþróttamanna í Ástralíu.
Adam Scott er í hópi þekktustu íþróttamanna í Ástralíu. AFP

Ástralski kylfingurinn Adam Scott greindist í vikunni með kórónuveiruna og dró sig úr keppni á Zozo mótinu á PGA-mótaröðinni sem hefst í Kalifornía í dag. 

Scott hefur lengi verið í fremstu röð og var um tíma efsti kylfingur heimslistans. Hann sigraði á Masters mótinu árið 2013 og hefur verið á meðal fimm efstu á öllum risamótunum. 

Scott er fertugur og hefur lítið leikið á þessu ári, einmitt vegna kórónuveirunnar. Fyrir vikið hefur hann fallið niður í 15. sæti heimslistans en var á meðal tíu efstu snemma árs. Scott lék vel í byrjun árs en í mars var keppni hætt á PGA-mótaröðinni vegna faraldursins. Þegar keppni hófst á ný í júní þá hafði Scott ekki áhuga á því að snúa aftur til Bandaríkjanna vegna ástandsins þar og beið með það alveg fram í september þegar Opna bandaríska mótið fór fram. Nú hefur það hins vegar gerst sem hann óttaðist, að veikjast af kórónuveirunni. 

mbl.is