Tiger klökkur á blaðamannafundi

Tiger Woods á æfingahring á Augusta National í vikunni.
Tiger Woods á æfingahring á Augusta National í vikunni. AFP

Masters-mótið í golfi er nýhafið á Augusta National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Mótið fer árlega fram í apríl en í þetta skiptið var því frestað fram í nóvember vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar. 

Masters er því síðasta risamót ársins hjá körlunum í þetta skiptið en er vanalega fyrsta risamót ársins. Stefnt er að því að mótið 2021 fari fram í apríl og því mun ekki líða nema liðlega hálft ár á milli. 

Ekki byrjar mótið vel í þetta skiptið því fyrstu menn voru rétt farnir af stað þegar þeir voru reknir inn aftur. Það rignir í dag í Augusta og líklega er hætta á eldingum fyrst hlé var gert á keppni.

Ávallt ríkir mikil spenna fyrir mótið enda til mikils að vinna. Tiger Woods sigraði árið 2019 og vakti sigurinn heimsathygli enda hafði Tiger Woods ekki unnið á neinu risamótanna í ellefu ár. 

Ekki er annað að sjá en að Tiger Woods hafi orðið klökkur á blaðamannafundi á Augusta í vikunni þegar hann var beðinn um í upphafi fundarins að rifja upp sigurinn í fyrra og tilfinningarnar sem því fylgdi. 

mbl.is