Íslandsmeistarinn náði sér ekki á strik

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/seth@golf.is

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi úr Keili, er úr leik eftir 36 holur á móti í Sádí Arabíu en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. 

Guðrún Brá náði sér ekki á strik og lék á 80 og 77 höggum. Guðrún er gjarnan stöðug í leik sínum og ólíkt henni að missa hring upp í 80 högg. 

Var hún á samtals tólf höggum yfir pari vallarins. Aðstæður virðast hafa verið erfiðar því það stefnir í að það dugi að vera á sex höggum yfir pari til að komast í gegnum niðurskurðinn. 

Besti árangur Guðrúnar á Evrópumótaröðinni er 57. sæti á móti sem fram fór í Tékklandi. Hún er í sæti númer 135 á stigalista Evrópumótaraðarinnar. 

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er einnig með keppnisrétt á mótaröðinni en er frá vegna meiðsla. 

mbl.is