Tiger hefur aldrei byrjað betur

Tiger Woods slær upp úr sandgryfju á hringnum í dag.
Tiger Woods slær upp úr sandgryfju á hringnum í dag. AFP

Englendingurinn Paul Casey er efstur á Masters-mótinu í golfi að loknum fyrsta keppnisdegi en hann lék frábærlega, er á sjö höggum undir pari Augusta National-vallarins í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Casey lék á 65 höggum og frammistaðan var nánast óaðfinnanleg enda fékk Casey engan skolla á hringnum en einn örn, fimm fugla og paraði rest. Er hann með tveggja högga forskot á næstu menn en ekki náðu allir að ljúka leik í dag. Töf varð á keppni snemma í dag þegar hellirigndi í Augusta. 

Paul Casey gat leyft sér að vera ánægður með hringinn.
Paul Casey gat leyft sér að vera ánægður með hringinn. AFP

Kunnir kappar koma næstir á fimm undir pari, Webb Simpson, Xander Shauffele og Justin Thomas, en enginn þessara kylfinga hefur þó unnið Masters-mótið. Simpson og Thomas hafa þó sigrað á risamóti. Það hefur Casey aldrei gert og er orðinn 43 ára. Casey hefur hins vegar oft leikið vel á Masters og fimm sinnum verið á meðal tíu efstu manna í mótinu í gegnum árin. Fyrr á árinu hafnaði Casey í 2. sæti á PGA-meistaramótinu og hefur ekki gefið upp vonina um að vinna risamót. 

Tiger Woods lék á 68 höggum og er ásamt mörgum fleirum á fjórum höggum undir pari. Jafnaði hann þar með sinn besta árangur á fyrsta hring á Masters. Tiger hefur fimm sinnum unnið mótið en hefur verið þekktur fyrir að byrja varlega á fyrsta keppnisdegi til að kasta ekki frá sér möguleikanum á sigri. 

Augusta National-völlurinn getur verið fljótur að refsa kylfingum fyrir slæmar ákvarðanir en hann var viðráðanlegur í dag og skorið var mjög gott. Má meðal annars skýra það með því að benda á að rignt hefur nokkuð síðustu daga og flatirnar tóku því mjúklega á móti boltunum. 

Bryson DeChambeau sem vakið hefur óskipta athygli á árinu bauð …
Bryson DeChambeau sem vakið hefur óskipta athygli á árinu bauð ekki upp á flugeldasýningu á fyrsta keppnisdegi. AFP

Efsti kylfingur heimslistans, Dustin Johnson, er á þremur undir pari eftir níu holur. Justin Thomas er á fimm undir eftir tíu holur og gæti því mögulega náð Casey. Keppendur verða sendir út eldsnemma á morgun til að ljúka hringnum.

Bryson DeChambeau var sigurstranglegastur hjá veðbönkum og lauk leik á 70 höggum. 

Gamla kempan Bernhard Langer neitar að sýna ellimerki en þessi 63 ára gamli afreksmaður er á þremur undir pari eftir 10 holur. Hann sigraði á Masters 1985 og 1993.

Bernhard Langer á hringnum í dag en hann er í …
Bernhard Langer á hringnum í dag en hann er í toppformi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert