Ógjörningur að spá um úrslit

Dustin Johnson hefur leikið geysilega vel síðustu mánuði.
Dustin Johnson hefur leikið geysilega vel síðustu mánuði. AFP

Ekki vantar spennuna á Masters-mótinu í golfi sem nú stendur yfir á Augusta National vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Ekki hefur tekist að ljúka öðrum keppnisdegi og hafa því einhverjir náð að ljúka 36 holum af 72 en aðrir eiga eftir að ljúka öðrum keppnishringnum því það tókst ekki fyrir myrkur í kvöld.  Þeir verða ræstir eldsnemma í fyrramálið til að ljúka við annan hringinn og þá kemur í ljós hverjir komast í gegnum niðurskurð keppenda. 

Dagsrkráin fór úr skorðum snemma í gær vegna rigningar og því hefur ekki tekist að ljúka því sem til stóð fyrstu tvo dagana. Mótið fer iðulega fram í apríl en það var ekki hægt í ár vegna heimsfaraldursins. Minna svigrúm er til að spila í nóvember á Augusta þar sem myrkur skellur fyrr á en í apríl. 

Mikil spenna er í mótinu og ógjörningur að segja fyrir um úrslit á þessum tímapunkti. Margir af bestu kylfingum heims hafa náð sér á strik og skorið er gott af ýmsum ástæðum. Flatirnar eru mýkri en oft áður, sem gerir kylfingunum auðveldara fyrir, og þá hefur verið hægviðri á vellinum. 

Staða efstu manna: 

-9 Abraham Ancer

-9 Cameron Smith

-9 Justin Thomas 

-9 Dustin Johnson

-8 Patrick Cantlay 

-8 Sungjae Im

-8 Hideki Matsuyama (er á 15. holu á öðrum hring)

-8 Jon Rahm (er á 12. holu á öðrum hring)

-7 Danny Willett 

-7 Tommy Fleetwood

-7 Justin Rose

-7 CT Pan (er á 16. holu á öðrum hring)

-7 Louis Oosthuizen -7 (er á 12. holu á öðrum hring)

Tiger Woods er á fjórum undir pari og hefur leikið 10 holur á öðrum hringnum. Bryson DeChambeau er í basli að ná niðurskurðinum en hann er á höggi yfir pari. Er hann á 13. holu á öðrum hring. 

Justin Thomas hefur aldrei verið nálægt sigri á Masters en …
Justin Thomas hefur aldrei verið nálægt sigri á Masters en virðist nú til alls líklegur. AFP
mbl.is