Rétt slapp í gegnum niðurskurðinn eftir risastór orð

Bryson DeChambeau er gríðarlega högglangur kylfingur.
Bryson DeChambeau er gríðarlega högglangur kylfingur. AFP

Hinn aflmikli Bryson DeChambeau slapp í gegnum niðurskurðinn á Masters-mótinu í golfi sem venju samkvæmt er haldið á Augusta National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

DeChambeau, sem vann opna bandaríska meistaramótið í september síðastliðnum, kom í hús á pari eftir tvo hringi sem rétt dugði til. Fjöldi kylfinga gat ekki klárað leik á föstudag vegna þrumuveðurs í Georgíuríki og því þurfti um helmingur kylfinga að klára annan hringinn í dag. Þar á meðal DeChambeau.

DeChambeau lék fyrsta hringinn á tveimur höggum undir pari og annan hringinn á tveimur yfir pari.

Tiger Woods á titil að verja en hann hefur leikið fyrstu tvo hringina á fimm höggum undir pari. Hann lék á 68 höggum á fimmtudag og 71 í gær.

Þrátt fyrir að Tiger hljóti jafnan mesta athygli fjölmiðla vöktu orð DeChambeaus fyrir mótið óneitanlega mikla athygli. Parið á Augusta National er 72 en vegna högglengdar sinnar sagði DeChambeau að það ætti að vera 67 fyrir sig.

John Rahm, Dustin Johnson, Justin Thomas, Abraham Ancer og Cameron Smith eru allir í á -9 og leiða mótið þegar það er hálfnað.

Þriðji hringur mótsins er farinn af stað.

mbl.is