Metin féllu á Masters

Cameron Smith vakti mikla athygli um helgina.
Cameron Smith vakti mikla athygli um helgina. AFP

Alla vega þrjú met voru slegin á Augusta National-vellinum þegar Masters-mótið fór þar fram á dögunum en því lauk á sunnudagskvöldið með sigri Bandaríkjamannsins Dustins Johnsons. 

Dustin Johnson lék samtals á 20 höggum undir pari sem er nýtt met varðandi heildarskorið á Masters en á bak við það eru fjórir hringir eða 72 holur eins og ávallt á risamótunum í golfi. 

Tiger Woods klæðir Dustin Johnson í græna jakkann eftirsótta.
Tiger Woods klæðir Dustin Johnson í græna jakkann eftirsótta. AFP

Ástralinn Cameron Smith setti einnig athyglisvert met. Hann varð fyrsti maðurinn í sögu mótsins til að leika alla fjóra hringina undir 70 höggum. Smith lék á  67-68-69-69 og lauk keppni á samtals 15 undir pari eða fimm höggum á eftir sigurvegaranum. Johnson lék hringina á 65-70-65-68. 

Ef til vill féllu þessi met þar sem aðstæður voru afar heppilegar fyrir kylfinga. Flatirnar voru mýkri og hægari en vanalega en ein helsta þrekraunin á Augusta National er glíman við flatirnar. Hvort sem það er í innáhöggum eða púttum. Völlurinn var auðveldari viðureignar en auk þess var logn fyrstu þrjá dagana og lengi fram eftir fjórða keppnisdegi. Erfitt þykir að reikna út vindinn á sumum holum á Augusta National og þegar hann blæs gerir það kylfingunum alla jafna nokkuð erfiðara fyrir. 

Eitt metið sem féll hefur þó líklega lítið með aðstæðurnar að gera heldur hæfileika og vinnusemi viðkomandi kylfings. Þjóðverjinn Bernhard Langer varð elsti maður í sögu mótsins til að komast í gegnum niðurskurð keppenda eftir 36 holur. Langer er 63 ára gamall og lauk leik á samtals þremur höggum undir pari sem er stórkostlegur árangur. Langer er ekki högglangur og þarf því að draga fram undir verkfæri í öðru höggi en ungu mennirnir. 

Bernhard Langer gefur ekki þumlung eftir.
Bernhard Langer gefur ekki þumlung eftir. AFP
mbl.is