Fór holu í höggi á Opna bandaríska (myndskeið)

Amy Olson er með eins höggs forystu á Opna bandaríska …
Amy Olson er með eins höggs forystu á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. AFP

Bandaríski kylfingurinn Amy Olson gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem fram fer á Cypress Creek og Jackrabbit-völlunum í Houston í Bandaríkjunum þessa dagana.

Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi, en Olson er með eins höggs forystu á mótinu eftir fyrsta keppnisdaginn sem fór fram í gær.

Hún lék á 67 höggum og var á samtals fjórum höggum undir pari en þær Lim Kim frá Suður-Kóreu, Moriya Jutanugarn frá Taílandi og Hinako Shibuno frá Japan fylgja fast á hæla hennar á þremur höggum undir pari.

Olson fór holu í höggi á sextándu holu vallarins en það er par þrjú hola. Hún er 28 ára gömul en hefur verið keppandi í LPGA-mótaröðinni undanfarin átta ár.

Hún bíður enn þá eftir sínum fyrsta sigri á stórmóti en Opna bandaríska meistaramótinu lýkur á sunnudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert